Ávarp forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands: Stúdentar og umhverfismál

Á undanförnum árum hafa loftslagsmál verið eitt helsta áhyggjuefni ungs fólks. Aðgerðir í loftslagsmálum snúa ekki aðeins að hegðun hvers og eins, heldur þurfa heildrænar aðgerðir að ná til alls samfélagsins. Umræða um raunverulegar úrbætur í loftslagsmálum fléttast saman við umræðu um virkt lýðræði og jafnt aðgengi að menntun. Háskólinn er því ómissandi þáttur í vegferð að betri heimi. 

Stúdentar hafa löngum látið sig málefni líðandi stundar varða, enda koma öll samfélagsleg málefni stúdentum við á einn eða annan hátt. Haldinn var stúdentafundur um herstöðvarmálið árið 1945 og árið 1972 mótmæltu stúdentar heimsókn William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Árnagarði og komu í veg fyrir heimsóknina. Fullveldishátíð stúdenta í Háskólabíói þann 1. desember sama ár var haldin undir kjörorðinu Gegn hervaldi – gegn auðvaldi. Var þar ályktun um uppsögn herverndarsamningsins við Bandaríkin, úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og stækkun fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur samþykkt með lófataki. Í mars árið 1974 var kona í fyrsta skipti kjörin formaður Stúdentaráðs, Arnlín Óladóttir læknanemi, og urðu kvenréttindi þá í fyrsta sinn baráttumál Stúdentaráðs. Þessir atburðir varpa ljósi á hve víðfeðm barátta stúdenta getur verið. Eðli málsins samkvæmt hafa stúdentar beitt sér af krafti fyrir auknum aðgerðum í loftslagsmálum, jafnt innan sem utan háskólans.

Í febrúar 2019 hóf Stúdentaráð, ásamt Landssamtökum íslenskra stúdenta og Sambandi íslenskra framhaldsskóla, loftslagsverkföll á hverjum föstudegi. Krafa verkfallanna var sú að stjórnvöld lýstu yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála og að þau, ásamt fyrirtækjum, gripu til aðgerða til að stemma stigu við loftslagsvánni. Verkföllin voru innblásin af verkföllum Greta Thunberg, Fridays for future. Loftslagsverkföllin hlutu viðurkenningu frá Reykjavíkurborg og voru valin maður ársins hjá fréttastofu Stöðvar 2.

Stúdentaráð telur að Háskóli Íslands eigi bæði að vera leiðandi í umræðunni  og baráttunni við loftslagsvána og að það sé á ábyrgð háskólans að leggja áherslu á alvarleika málsins, benda á vísindin og gera kröfu um að þeir aðilar sem eiga í hlut hverju sinni taki þeirra ábendingum og loftslagsvánni alvarlega með þörfum aðgerðum. Á Stúdentaráðsfundi þann 25. október 2022 var lögð fram, og samþykkt, tillaga þess efnis að Stúdentaráð myndi skora á Háskóla Íslands að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og fylgja yfirlýsingunni eftir með því að útbúa aðgerðaráætlun fyrir háskólann. Þetta er í annað skipti sem Stúdentaráð leggur fram slíka áskorun, en taldi ráðið ástæðu til að gera það á nýjan leik í ljósi þess að tæpum þremur árum eftir að Stúdentaráð setti fyrst fram þessa áskorun hefur Háskóli Íslands ekki enn lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum né hafið markvissa vinnu að aðgerðaráætlun. Þann 2. nóvember sama ár afhenti þáverandi forseti Stúdentaráðs rektor áskorunina og forseti umhverfis- og samgöngunefndar fylgdi málinu eftir í skipulagsnefnd háskólaráðs. Þar þrýsti fulltrúi stúdenta á að vinnu við gerð aðgerðaráætlunar yrði komið inn í framkvæmdaáætlun nefndarinnar en hefur það ekki náðst í gegn þegar þetta er skrifað. 

Stúdentaráð verður að halda áfram að þrýsta á háskólann að bregðast við og koma málinu inn á borð háskólaráðs. Með því að lýsa yfir neyðarástandi myndi  Háskóli Íslands taka skýra afstöðu og setja þannig bæði pressu á sína eigin starfsemi, sem og annarra stofnana og fyrirtækja. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir metnaðarfullum aðgerðum HÍ í loftslagsmálum, nema ákvarðanir stjórnsýslu skólans.