Þjóðverji metur íslenska Októberfest

Þýðing: Guðný N. Brekkan

Það er margt sem ég sá þessa þrjá daga á Októberfest. Stundum kannski aðeins of mikið. Ég sá Pál Óskar í allri sinni glitrandi, einhyrninga og regnboga dýrð heilla mannfjöldann, ClubDub og Birni gjörsamlega svífa í ótamdri hjörð af mestmegnis ungum Íslendingum og ég varð vitni að hinni klassísku hátíðarhegðun. Þú giskaðir rétt. Fólk að ríða inni á kamri.

Við skulum samt byrja á því augljósa. Af hverju í ósköpunum er þetta kallað Októberfest þegar hún er bókstaflega haldin í September??? Ég er með svo margar spurningar.

 

O’Zapft is! (Einfaldlega: bjórinn er á krana)

 

Fyrst og fremst þá er ég hinn fullkomni aðili til að meta Októberfest.

Kem ég upprunalega frá paradís pylsna, ættjarðarástar og móðurlandi hinnar upprunalegu Oktoberfest? (Þér til upplýsingar þá er það Bæjaraland)

-  Nei, en ég er frá nágrannaríkinu og við ERUM með kringlur!!!

Var ég full af djúpri skömm og örlitlu hatri gagnvart Lederhosen og Dirndl (kynþokkafyllri útgáfu íslenska þjóðbúningsins) þangað til ég var svona 19?

- Svo sannarlega. Ótrúlegt en satt, þá á ég ennþá dirndl, þar sem hópþrýstingur varð til þess að ég eyddi yfir 150 € í einn slíkan.

Hef ég andstyggð á þýska Schlager, tegund af karlrembu þjóðlagatónlist sem er spiluð á Oktoberfest?

- Algjörlega. Samt sem áður fær nóg af áfengi þig til að týna eigin mörkum í tónlistarsmekk (mæli ekki með).

En hey, ég er Þjóðverji þannig að ég er sennilega betur fallin en mörg til að meta íslenskt Októberfest. Gerum þetta.

  

Sumarbúðir nema ölvaðri

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég rakst á drulluga hátíðarsvæðið, sem var á malarstæðinu fyrir framan háskólann, var lyktin í tjaldinu. Á (frekar) melankólískan hátt minnti hún mig á langa sumardaga í sumarbúðum með fullt af öðrum háværum börnum. Á vissan hátt er hægt að líkja Októberfest við það. Moldarkeimurinn í bland við sterka plastlykt af hátíðartjaldinu bjó til þessa röku og þykku (sumar-/tjald)búða lykt sem öll þekkja örugglega. En nóg um lyktina og aftur í partíið.

Fyrsta kvöld Októberfest átti að byrja með íslenska trúbadornum Bubba Morthens. (Af einhverjum ástæðum móðgaðist íslenski kærastinn minn við að ég kallaði Bubba það?) En því miður komst hann ekki svo Ásgeir Trausti tók við og opnaði hátíðina með mjúku og lagrænu tónsmíðunum sínum. Ég tók eftir að þó að venjan á upprunalega Októberfest sé að klæðast hrífandi Dirndl og flottum Lederhosen þá er íslenska útgáfan meira að vera með aflitað hár, appelsínugula gervibrúnku og svakalega lágar buxur sem sýna nærfötin. Ég sá reyndar nokkra í Lederhosen og Dirndl!

Innan tjaldanna fjögurra á svæðinu var eitthvað í gangi fyrir öll. Í Símatjaldinu var boðið upp á karókí, þögult diskó, glimmermálningarveislu og bjórpong. Samtímis í tveimur af hinum tjöldunum, Tuborg og Redbull, var listafólk að koma fram stanslaust sem gerði það að verkum að erfitt var að velja hvert átti að flýta sér næst án þess að nota tímabreyti. Sem betur fer var íslenska popp-, rapp- og þjóðlagatónlistin sem var spiluð á Októberfest mun meira minn smekkur en tónlistin sem nýtur sín í upprunalegu útgáfunni. Ein ástæðan fyrir því gæti verið sú staðreynd að á meðan ég herm-öskraði textana þá skildi ég þá eiginlega ekki.

Meira eins og Septemberfest

Þar sem um hátíð er að ræða og venja að fólk verði nokkuð drukkið er vert að taka það fram að fyrstu tvö kvöldin var áfengisneysla mín ekki í takt við öll hin. Flest voru alveg út úr því sem gerði það að verkum að það var erfitt að viðhalda nægu plássi ásamt því að njóta sýningarinnar. Eftir tónleika Birnis þurfti ég í alvörunni að olnboga mig út með það á tilfinningunni að ég væri að berjast fyrir lífi mínu í íslensku útgáfunni af Hungurleikunum og óttaðist þann hrottalega dauðdaga að vera troðin undir. (Ég sé fyrir mér símtalið við mömmu einhvern veginn svona: „Dóttir þín var troðin til bana á íslensku Októberfest!“ Mamma: „Æ, ekki einu sinni á þeirri upprunalegu?! Skamm!“) Þetta varð þó betra seinasta kvöldið. Mögulega vegna þess að ég reyndi ekki lengur að vera fremst við sviðið og áfengisneyslan jókst stöðugt og jafnaðist á við hin. Á heildina litið var hátíðarsvæðið kannski aðeins of lítið miðað við magnið af seldum miðum eða þá að Íslendingar elska spennuna við að vera við dauðans dyr.

En af hverju er Októberfest haldin í September? Frá fjölmörgum nafnlausum aðilum heyrði ég hvíslað að hátíðin hafi verið haldin í október. Það bara vill svo til að við búum á eyju í miðju Norður-Atlantshafi þannig að auðvitað verður skítaveður því nær sem dregur hinum endalausa vetri. Veturinn nálgast býst ég við. Þess vegna var Októberfest að lokum færð aftur í september.

Eitt sem veltist um í ölvunarhugleiðingum mínum alla þrjá daga hátíðarinnar voru örlög fuglanna í Vatnsmýrinni. Ég veit að gæsirnar eru dónalegir asnar sem láta eins og þær stjórni borginni ásamt því að ráðast á saklausa vegfarendur. Engu að síður fann ég til með þeim. Bassinn sendi djúpan titring út eftir jörðinni sem sennilega stressaði vesalings skepnurnar hálfa leið ofan í snemmbúna gröf. En hey, Októberfest kostar sitt og gæsirnar þurfa bara að borga.

Hvar eru kringlurnar???

Á heildina litið, get ég mælt með því að fara á Októberfest? Já, algjörlega. Ef þú ert til í mikinn og drukkinn mannfjölda og drullupolla áttu eftir að skemmta þér stórkostlega. Þú átt eftir að sjá allt það besta í íslensku poppsenunni, hitta fullt af drukknu fólki sem mun svo hunsa þig þegar þú rekst edrú á það á göngum háskólans (gæti þó verið minnisleysi) og þú getur troðið í þig frábærum en dýrum mat úr matarvögnum. En hvar eru kringlurnar samt??

MenningAlina Maurer